fimmtudagur, 6. maí 2021
 

Ragnheiðarstaðir

Ragnheiðarstaðir Ragnheiðarstaðir í Flóa er 400 hektara jörð á Suðurlandi í eigu Helga Jóns Harðarsonar og konu hans Freyju Sigurðardóttur. Jörðin er 67 km frá Reykjavík og liggur að sjó og örstutt frá frá Þjórsárósum. Um 20 km eru frá Ragnheiðarstöðum á Selfoss, eða um 10-15 mínútna akstur.

Á jörðinni er m.a. stórt íbúðarhús, hesthús, hlaða, vélaskemma ofl. Á jörðinni er stunduð frístundar hestamennska fjölskyldunnar og lítilsháttar hrossarækt. Jörðin er að stórum hluta hólfuð niður í beitarhólf með rafmagnsgirðingum og vatnsbrynningartækjum í hverju hólfi. Í landi Ragnheiðarstaða eru nýbýlin Brim og Tjarnastaðir. Við Þjórsárósinn er síðan bærinn Fjóltshólar.

Ragnheiðarstaðir í Flóa er kunnug m.a. fyrir hrossarækt til margra ára. Í lok áttunda áratugarins eignaðist Hestmannafélagið Fákur jörðina og höfðu félagsmenn hesta þar í beit. Voru um það bil 250 hross á jörðinni þegar mest var. Það voru Ólafur Ólafssson og frú hans Sæunn Þorsteinsdóttir þáverendur bændur á Ragnheiðarstöðum sem hófu skipulagða ræktun hrossa fyrir um það bil 25 árum síðan. Hjá hjónunum nutu margir þess að hafa hross sín á Ragnheiðarstöðum, meðal annarra Arnar Guðmundsson í Ástund sem ræktaði hross frá Ragnheiðarstöðum t.d. Rás frá Ragnheiðarstöðum en hún var Landsmóts sigurvegari í tölti 2002 og Íslandsmeistari með Eyjólf Ísólfsson við stjórnvölina.

Markmið Hafnfirsku fjölskyldunnar er að hafa gaman af hrossarækt, rækta gæðinga, reiðhross, viljuga með fótaburð og mýkt. Fjölskyldan á í dag nokkrar 1. verðlauna hryssur og fær um fimm folöld á ári. Fyrstu folöldin úr ræktuninni komu til frumtamingar í haust (2008).